Málsmeðferð

Nefndin yfirfer tilkynningu sem henni berst og tekur skriflega og rökstudda ákvörðun um viðbrögð við henni.

Það er hlutverk nefndarinnar að koma tilkynningu til meðferðar á réttum stað innan lögreglu- og ákæruvaldsins. Nefndin fer sjálf ekki með ákæruvald, rannsókn sakamála eða vald til að beita starfsmenn lögreglu viðurlögum.

Í ákvörðun nefndarinnar getur falist eftirfarandi:

  1. Nefndin getur lagt fyrir héraðssaksóknara eða ríkissaksóknara að taka tilkynninguna til meðferðar, ef tilkynningin varðar refsiverða háttsemi.
  2. Nefndin getur lagt fyrir viðkomandi lögreglustjóra að taka tilkynninguna til meðferðar, ef tilkynningin varðar starfsaðferð eða framkomu starfsmanns lögreglu.
  3. Nefndin getur lagt fyrir ríkislögreglustjóra að taka tilkynninguna til meðferðar, ef tilkynningin varðar almenna starfshætti lögreglu.

Ef nefndin telur ekki tilefni til að vísa tilkynningu til frekari meðferðar, þá tekur nefndin um það skriflega og rökstudda ákvörðun. Ef nefndin telur að efni tilkynningarinnar heyri ekki undir starfssvið hennar þá er tilkynningunni vísað frá.

Ákvörðun nefndarinnar er send þeim sem tilkynnti og birt viðkomandi embætti, ef við á.